Paramahansa Yognanda
(1893 - 1952)

-boðberi Kriya Yoga og faðir Yoga á vesturlöndum.

Paramahansa Yogananda var fæddur Mukunda Lal Ghosh 5. janúar árið 1893 í borginni Gorakhpur á Norður Indlandi við rætur Himalaya-fjalla. Það kom fram strax á fyrstu árum æfi hans að skilningur hans á hinu andlega var langt umfram það sem almennt var og ljóst að líf hans yrði tileinkað Guði.

Mikil leit hans að kennara (Guru) bar árangur þegar hann hitt Meistara sinn, Swami Sri Yucteswar árið 1910, þá aðeins 17 ára að aldri. Næstu tíu árum eyddi hann í einsetubústað Meistara síns samhliða háskólanámi sem lauk árið 1915 en það sama ár gerðist hann munkur í Indversku Munkareglunni. Við það hlaut hann nafnið Yogananda.

Árið 1917 stofnaði hann “How to Live” skólann en þar fóru saman hefðbundin menntun og gildi hins andlega lífs.

Árið 1920 var Swami Yogananda boðið, sem fulltrúa Indlands, að ávarpa alþjóðlega trúarráðstefnu í Boston en ræða hans þar “The Science of Religion” vakti gríðarlega athygli, ekki síst vegna þess að hann fullyrti þar að hægt væri að ná raunverulegu sambandi við Guð.

Yogananda ferðaðist um Bandaríkin og hélt fyrirlestra í öllum helstu borgum og frægt er þegar vísa þurfti þúsundum frá troðfullum þrjú þúsund sæta sal Los Angeles Philharmonic einni klukkustund áður en hann steig á sviðið. Það var einmitt í Los Angeles sem Yogananda settist að og þar eru enn þann dag í dag höfuðstöðvar Self-Realization Fellowship (SRF) sem hann stofnaði formlega árið sem hann steig fyrst á land í Boston eða í September 1920.

Á árunum 1935-36 ferðaðist hann til Evrópu og Indlands en það var þá sem Meistari hans Swami Sri Yucteswar, gaf honum titilinn “Paramahansa” sem táknar óslitið samband við Guð og er hæsti titill sem andans mönnum er veittur á Indlandi.

Að loknu þessu ferðalagi fór Yogananda að sinna ritstörfum og dró úr opinberum ræðuhöldum. Árið 1946 kom út sjálfsæfisaga hans “Autobiography of a Yogi” en sú er bók er á lista yfir hundrað markverðustu bækur andans málefna á síðustu öld og er í sífelldri endurprentun.

Paramahansa Yogananda hefur oft verið kallaður faðir Yoga á Vesturlöndum. Óhætt er að segja að hann sé í hópi mestu og virtustu leiðtoga andans málefna á síðustu öld. Hann benti á hinn sameiginlega undirliggjandi sannleika á bak við helstu trúarbrögð heims og þeim er sýndu einlægan áhuga kenndi hann hina ævafornu hugleiðsluaðferð Kriya Yoga.

Paramahansa Yogananda andaðist árið 1952 en Maha Samadhi er það kallað þegar hinn mikill Yogi fer í hinsta sinn úr efnislíkama sínum við líkamsdauðann. Miklum undrum sætti það að líkami Yogananda sýndi engin merki um hrörnun eða eyðingu á þeim tuttugu dögum er liðu frá andláti hans og til greftrunar.